Er eitt af markmiðum ársins 2025 minnka áreiti, rólegra umhverfi og fleiri gæðastundir?

Börn verða fyrir miklu áreiti í daglegu lífi sem getur haft mikil áhrif á líðan og þroska þeirra. Frá því að börnin vakna og þar til þau fara að sofa eru þau sífellt að taka við upplýsingum í gegnum skynfærin sem getur verið streituvaldandi og þreytandi.

En hvað getum við gert til þess að minnka áreiti á börnin?
Við getum gert fullt og hérna eru nokkrar hugmyndir!

Að gefa börnum tækifæri til frjáls leiks – það þarf alls ekki allt að vera skipulagt frá A-Ö. Börn læra heilan helling í gegnum frjálsan leik en til þess að stuðla að frjálsum leik er mikilvægt að velja leikföng sem að henta vel og efla ímyndunarafl, sköpunargáfu og leikgleði.

Að vanda valið á leikföngum fyrir rólegra barnaherbergi.
Barnaherbergi er oft troðin af allskonar leikföngum og til þess að minnka áreiti á börnin mælum við með að skoða leikföngin og velta fyrir sér hvaða tilgangi þau gegna. Eru þau að ýta undir áreiti og streitu eða eru þau að bjóða upp á fallegan og þægilegan leik?

Af hverju að losa út leikföng?
Of mikið af leikföngum getur ollið því að börnin ná ekki að koma sér í leik – hvað þá að haldast í honum, þau ná ekki að einbeita sér og áreitið er of mikið. Við mælum því að með að velja leikföng sem að styðja við þroska barnsins svo að börnin upplifi leikföngin og leiksvæðið afslappandi.

Hvernig leikföng efla þroska barna?
Vandaður opinn efniviður ætti að vera á öllum heimilum samkvæmt okkur. Vönduð leikföng eru oft einfaldari þar sem áhersla er lögð á gæði, öryggi og þroska barna fremur en leikföng með tímabundna skemmtun (þið vitið, þessi leikföng sem að hverfa eða batteríið er bara alltaf búið). Vönduð leikföng endast oft kynslóðanna á milli og skapa lengri gæðastundir.

Hvaða leikföng gæti verið gott að hafa í barnaherberginu?
Við mælum með að velja leikföng sem hafa meira gildi og endast lengur í stað þess að fylla barnaherbergin af óþarfa hlutum og leikföngum sem hafa tímabundna skemmtun.

Kubbar
Við mælum alltaf með góðum kubbum í leikherbergi. Þá eru viðarkubbarnir frá Just Blocks og eða segulkubbar algjör snilld og höfum við ekki enn fundið börn sem hafa ekki gaman að þeim.

Dýr eða fígúrur
Á okkar heimili eru dýr og fígúrur mikið notað með öllum kubbum. Holztiger dýrin eru einstaklega vönduð, falleg og vinsæl en síðan eru frægar persónur eins og Hvolpasveit eða Blæja einnig mikið notaðar með kubbunum sem gerir leikstundirnar mjög langar og sjálfstæðar. Oft er þessu síðan öllu blandað saman og búnar til heilu sögurnar!

Púsl
Púsl eru mjög vinsæl og fá börn oft til þess að ná rólegum fallegum stundum sem einkennast af þrautseigju, rökhugsun og einbeitingu. Til eru allskonar púsl með fjölbreyttum myndum í ólíkum erfiðleikastigum svo að það ættu allir að geta fundið púsl sem að hentar.

Bækur
Við lesum mikið og dætur okkar gera það líka. Til er fjöldinn allur af bókum sem að hægt er að velja um en við mælum með vönduðum bókum með fallegum boðskap.

Silki
Silki eða leikklútar eru alltaf skemmtileg viðbót við kubbana þar sem börnin geta búið til eldgos, haf, gras eða hvað sem þeim dettur í hug sem að færir leikinn upp á næsta stig án mikillar fyrirhafnar. Það er einmitt ein helsta snilldin við opinn efnivið að hann getur verið hvað sem er og eldist því vel með börnunum.

Hlutverkaleikur
Við mælum líka með því að hafa leikföng sem að hvetja börn til þess að fara í hlutverkaleik. Ef það er pláss þá mælum við alltaf með eldhúsinu eða smíðabekknum þar sem börnin geta leikið sér tímunum saman í því en það er einnig hægt að fá fullt af öðru til þess að leika í hlutverkaleik. Kaffihús, ísbúð, lautarferð, smíðasett og margt margt fleira.
Í hlutverkaleik þykir líka mörgum börnum mjög gaman að fara í búninga og bregða sér í hlutverk dýralæknis, slökkviliðsmanns, læknis eða kokks svo eitthvað sé nefnt.

Það eru margar leiðir til þess að skapa rólegra, þægilegra umhverfi fyrir börn en að velja þroskandi leikföng og losa út úr barnaherberginu er ein hugmynd!